Innlent

Þurfum að gera betur varðandi flóttafólk

Íris Björg Kristjánsdóttir
Íris Björg Kristjánsdóttir
Flóttafólk á blaðamannafundi Hjónin Ramin og Jana Sana komu hingað til lands frá Úsbekistan og Afganistan árið 2003. Þau voru ekki skilgreind sem pólitískir flóttamenn en fengu dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum. fréttablaðið/pjetur
Flóttamannanefnd velferðarráðuneytisins vonast til þess að geta tekið á móti svokölluðu kvótaflóttafólki hingað til lands í byrjun næsta árs. Ekki var tekið á móti neinum árið 2009 eða í ár, en sex kólumbískir flóttamenn fengu hér aðstöðu í fyrra. Hugtakið kvótaflóttamaður vísar til þess ákveðna fjölda sem boðið er til landa samkvæmt mati Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Í haust tók við nýr formaður ráðsins, Íris Björg Kristjánsdóttir, og segir hún það hafa verið hennar fyrsta verk að athuga hvort fjárframlög frá ráðuneytunum þremur, velferðar-, innanríkis- og utanríkisráðuneyti, yrði til þess að mögulegt væri að taka á móti fólki á ný.

„Við erum mjög langt frá því að gera nógu vel í málefnum flóttamanna,“ segir hún. „En það litla sem við höfum gert höfum við þó gert vel.“ Íris nefnir þar hlut Rauða krossins og því stuðningsfjölskyldnakerfi sem þar hefur verið komið á fyrir flóttamenn.

„En við verðum að gera betur. Það verður að vera sameiginlegur áhugi allra aðila. Ég vil sjá meiri áhuga Íslendinga á málefnum flóttamanna því hingað til hefur okkur þótt það vanta,“ segir hún. „Og ef þessi umræða fer í gang fyrir alvöru, þá mun hún skila sér inn í ákvarðanatöku hjá stjórnvöldum.“

Ekki hefur verið neinn ákveðinn gangur á því hvort eða hversu mörgum flóttamönnum Ísland hefur tekið á móti á ársgrundvelli. Íris segir það vera í skoðun hvort hægt sé að búa til fjögurra eða fimm ára áætlun, líkt og tíðkast á Norðurlöndunum.

„Ríkisstjórnin setti sér það markmið að efla þennan málaflokk. Það hefur verið alltaf ákveðinn fjöldi á ári í Skandinavíu og það er eitthvað sem við erum að skoða hér,“ segir hún, og bætir við að það sé erfitt að horfa á ákveðna kostnaðaráætlun í þessu samhengi. „Málið fer á endanum að snúast um peninga, þar sem hver einasta króna skiptir máli og getur breytt mannslífum.“

Málin eru í vinnslu í utanríkisráðuneytinu. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er svör að vænta þaðan á næstu vikum.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×