Erlent

Samstarfið ekki gegn Pakistan

Hamid Karsai, forseti Afganistans, og Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands, í Nýju-Delí á þriðjudag.Fréttablaðið/AP
Hamid Karsai, forseti Afganistans, og Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands, í Nýju-Delí á þriðjudag.Fréttablaðið/AP
„Þessu viðskiptabandalagi er ekki ætlað að beinast gegn neinu landi,“ sagði Hamid Karzai, forseti Afganistans, í heimsókn sinni á Indlandi á miðvikudag.

Afganar og Indverjar undirrituðu samkomulag um viðskiptasamstarf á þriðjudag, en með orðum sínum var Karzai greinilega að tala til Pakistans, sem hefur áratugum saman litið á Indland sem helsta andstæðing sinn.

„Þetta á að gera Afgönum kleift að njóta góðs af styrkleika Indverja,“ sagði Karzai um tilgang samstarfsins.

Náið samstarf Indlands og Afganistans vekur hins vegar áhyggjur stjórnvalda í Pakistan, sem undanfarið hafa sætt æ harðari ásökunum frá bæði Afganistan og Bandaríkjunum um að þau styðji við bakið á hryðjuverkasamtökum, sem hafa aðstöðu í Pakistan en gera reglulega árásir í Afganistan.

Nú síðast hafa Afganar sakað Pakistana um að hafa neitað að hjálpa til við rannsókn á morðinu á Burhanuddin Rabbani, fyrrverandi forseta Afganistans.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×