Innlent

Skoða brask með gjaldeyri og afleiður

„Í einu tilfellanna var til dæmis kona nokkur með kreditkort á reikningi í Lúxemborg en við skoðun á gögnum sem tekin voru kom í ljós að umsvifin voru talsvert umfangsmeiri,“ segir Gunnar Thorberg hjá skattrannsóknarstjóra.
„Í einu tilfellanna var til dæmis kona nokkur með kreditkort á reikningi í Lúxemborg en við skoðun á gögnum sem tekin voru kom í ljós að umsvifin voru talsvert umfangsmeiri,“ segir Gunnar Thorberg hjá skattrannsóknarstjóra.
Auk þess að hafa til rannsóknar fimmtíu skattaskjólsmál hefur embætti skattrannsóknarstjóra einnig til rannsóknar mál nokkurra tuga manna sem hagnast hafa á afleiðuviðskiptum og gjaldeyrisbraski hér á landi.

Í sumum tilfellum er um að ræða hundraða milljóna króna hagnað eða jafnvel milljarða króna hagnað sem ekki hefur verið greiddur skattur af, að því er Gunnar Thorberg, forstöðumaður rannsóknasviðs skattrannsóknarstjóra, greinir frá.

„Við fórum í svokallaða bankagreiningu eftir hrunið. Í ljós kom að menn högnuðust verulega á þessum viðskiptum í bankakerfinu hér heima og gerðu ekki grein fyrir hagnaðinum. Við höfum þegar lokið rannsókn á nálægt 20 slíkum málum sem send hafa verið til ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á skattlagningu en 17 mál bíða afgreiðslu. Greiða þarf 10 prósenta skatt af þessum hagnaði og jafnframt sekt. Ef hagnaðurinn hefur til dæmis verið 500 milljónir króna verður sektin sem greiða þarf 100 milljónir,“ segir Gunnar.

Svokölluðum skattaskjólsmálum sem eru til rannsóknar hjá embætti skattrannsóknarstjóra hefur fjölgað og eru þau nú nálægt fimmtíu. „Í tveimur þessara mála höfum við greint að ekki hafi verið greiddur skattur af milljörðum króna. Annað málið er langt komið en hitt aðeins skemur. Það er mjög stórt og tengist mörgum aðilum. Það mun líða þónokkur tími þar til endanleg niðurstaða fæst og þá verður það sent til ríkiskattstjóra,“ greinir forstöðumaður rannsóknasviðsins frá.

Hann segir mörg aflandsmálin tengjast málum sem komu upp í kjölfar húsleitar hjá kreditkortafyrirtækjum.

„Kreditkortamálin hafa bólgnað út. Í ljós kom fjöldi nafna og bankareikninga. Í einu tilfellanna var til dæmis kona nokkur með kreditkort á reikningi í Lúxemborg en við skoðun á gögnum sem tekin voru kom í ljós að umsvifin voru talsvert umfangsmeiri.“

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×