Innlent

Tími kominn á skipaflotann

Tvö ný gámaflutningaskip frá Kína munu taka við af Selfossi og Brúarfossi, sem eru tuttugu ára gömul. Fréttablaðið/vilhelm
Tvö ný gámaflutningaskip frá Kína munu taka við af Selfossi og Brúarfossi, sem eru tuttugu ára gömul. Fréttablaðið/vilhelm
„Þetta eru stærstu skipin sem við getum látið smíða fyrir okkur miðað við þær hafnir sem við erum að fara inn á á suðurleið okkar. Við erum ekki aðeins að bæta um sautján prósentum við flutningsgetuna heldur erum við einnig að setja í skipin fleiri tengingar fyrir frystigáma,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.

Fyrirtækið hefur samið um smíði tveggja nýrra gámaskipa í Kína sem afhent verða eftir um eitt og hálft ár. Áætlaður kostnaður er 5,8 milljarðar króna. Í næstu viku verða tvö ár liðin frá því fjárhagslegri endurskipulagningu Eimskips lauk.

Gylfi bendir á að erfitt sé að finna leiguskip sem henti Eimskip og því hafi verið í skoðun síðustu sex mánuði að smíða skip sérsniðin að þörfum félagsins í Norður-Atlantshafi.

Skipin tvö eru fyrstu gámaskipin sem Eimskip lætur smíða í að verða fimmtán ár þegar Brúarfoss eldri var smíðaður. Þar á undan var Mánafoss smíðaður fyrir um fjörutíu árum.

Nýju skipin munu fara suðurleiðina svokölluðu. Brúarfoss og Selfoss fara þá leið í dag. Skipin eru hins vegar tuttugu ára gömul og farið að síga á seinni hlutann í líftíma þeirra; kannski fimm til tíu ár eftir hjá þeim í besta falli.

- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×