Innlent

Ekki svar við skoðun formanns

Orri Hauksson
Orri Hauksson
Bjarni Benediktsson
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), segir að árétting á skoðun samtakanna um að umsóknarferlinu vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu skuli lokið, og birt var á vef samtakanna í gær, sé ekki svar við orðum Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, frekar en öðrum einstaklingum í samfélaginu. Eins og kunnugt er sagði Bjarni í byrjun vikunnar að draga ætti umsókn Íslands til baka.

Í yfirlýsingu samtakanna segir að SI telji mikilvægt að umsóknarferlinu sé haldið áfram af fullum heilindum og í náinni samvinnu við atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila, enda kunni hagfelldur aðildarsamningur að verða fyrirtækjum og heimilum til mikilla hagsbóta. Þá telja samtökin engar líkur til að samningur, „þar sem veigamiklum hagsmunum verður fórnað, verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu“.

„Þessi skoðun hefur lengi legið fyrir. Undanfarið hefur verið rætt, og þá úr ýmsum áttum, að draga í land. Þess vegna þótti okkur ástæða til að árétta það sem var samþykkt á Iðnþingi í mars. Við nefnum engan á nafn heldur vildum við koma þessu á framfæri fyrst þessi umræða er ofarlega á baugi,“ segir Orri.- shá



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×