Íslenski boltinn

Hjörtur Júlíus Hjartarson: Þrisvar upp á fjórum árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörtur hjartarson fagnar hér tólfta marki sínu í sumar.
Hjörtur hjartarson fagnar hér tólfta marki sínu í sumar. Mynd/Valli
Skagamaðurinn Hjörtur Júlíus Hjartarson þekkir þá tilfinningu vel að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni. Hjörtur tryggði Skagaliðinu sæti í Pepsi-deildinni næsta sumar með því að skora jöfnunarmark liðsins á móti ÍR í fyrrakvöld.

Þetta er í þriðja sinn á fjórum árum sem Hjörtur fer upp með sínu liði. Hann fór líka upp með Þrótturum sumarið 2007 og fór síðan upp með Selfyssingum fyrir tveimur árum.

Hjörtur er markahæstur í 1. deildinni í ár með 12 mörk í 15 leikjum en hann varð markakóngur deildarinnar 2007 þegar hann skoraði 18 mörk í 21 leik með Þrótti. Hjörtur skoraði síðan 7 mörk í 10 leikjum með Selfyssingum sumarið 2009.

Hjörtur hefur því alls skorað 44 mörk í 67 leikjum í 1. deildinni undanfarin fimm sumur en sumarið 2008 lék hann með Þrótturum í úrvalsdeildinni.

„Ég hef ekkert gefið það út hvort ég leiki með Skaganum á næsta tímabili en líklega verða þeir án mín. Maður veit samt aldrei,“ sagði Hjörtur í viðtali á Vísi eftir ÍR-leikinn. Það væri kannski ekki vitlaust fyrir lið í 1. deildinni, sem ætlar sér að fara upp næsta sumar, að kanna stöðuna á kappanum eftir þetta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×