Innlent

Launamunur sem átti ekki að verða

Haraldur F. Gíslason segir allt að fjórðungsmun á launum leikskólakennara og grunnskólakennara.
Haraldur F. Gíslason segir allt að fjórðungsmun á launum leikskólakennara og grunnskólakennara.
Leikskólakennarar hafa dregist aftur úr í launum miðað við grunnskólakennara síðustu ár. Sveitarfélögin voru hins vegar búin að samþykkja fyrir sína parta að slíkur launamunur ætti ekki að vera milli stéttanna, segir formaður Kennarasambands Íslands, Þórður Hjaltested.

„Þarna er gat á milli sem var búið að brúa 2006, byggt á því að námið er sambærilegt,“ segir hann. Laun grunnskólakennara hafi hækkað árið 2008 um 16 til 20 prósent en leikskólakennara mun minna, því þeir sömdu eftir að efnahagskreppan var skollin á.

Fimm árum seinna er allt að því fjórðungsmunur á launum þessara stétta, að sögn formanns Félags leikskólakennara, Haraldar F. Gíslasonar.

Byrjunarlaun leikskólakennara eru um 247.000 á mánuði og Haraldur segir að leikskólakennurum hafi verið boðnar 29.064 krónur ofan á þessi laun í yfirstandandi kjaraviðræðum. Þannig yrðu launin tæplega 277.000 krónur, en sú hækkun yrði ekki búin að skila sér fyrr en eftir þrjú ár, árið 2014.

„Það segir mikið um stöðu okkar leikskólakennara að það sé bent á grunnskólakennara sem einhverja hálaunastétt,“ segir Haraldur.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×