Lífið

Beint úr tökum til Bergen

Jóhannes Haukur Jóhannesson ætlar að drekka í sig menninguna á listahátíð í Bergen á milli þess sem hann flytur Gerplu fyrir Norðmenn. Fréttablaðið/arnþór
Jóhannes Haukur Jóhannesson ætlar að drekka í sig menninguna á listahátíð í Bergen á milli þess sem hann flytur Gerplu fyrir Norðmenn. Fréttablaðið/arnþór
„Þetta verður bara alveg frábær og skemmtileg ferð,“ segir leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson en hann er á leiðinni til Bergen í Noregi með leikhópnum sem stendur á bakvið Gerplu.

Jóhannes hoppar eiginlega beint úr tökum á Svörtum á leik til Bergen „Minn síðasti tökudagur er á þriðjudaginn og svo held ég til Bergen á miðvikudaginn,“ segir Jóhannes en þetta verður í fyrsta sinn sem hann kemur til Noregs. „Ég hlakka mikið til að koma þangað. Mér skilst að við séum að sýna í gömlu og flottu leikhúsi í miðbæ Bergen en ég er mikill áhugamaður um leikhús.“

Ásamt Jóhannesi Hauki fara meðal annarra leikaranir Björn Thors og Brynhildur Guðjónsdóttir, en sýningar á Gerplu er hluti af listahátíðinni Nordiske Impulser og verður leikritið sýnt þrisvar sinnum dagana 26 til 28 maí næstkomandi. „Ég ætla að drekka í mig listamenninguna þarna úti enda skilst mér að það sé stútfullt af áhugaverðum viðburðum í boði á þessari hátíð,“ fullyrðir Jóhannes og þvertekur fyrir að ætla að kíkja í búðir í Bergen „Það er nú takmarkaður áhugi fyrir búðarferðum hjá mér. Er ekki Noregur líka dýrasta land í heimi? Ég ætla fyrst og fremst færa Norðmönnum íslenska list og gefa af mér.“

Síðustu vikur hefur Jóhannes staðið í ströngu í tökum á Svörtum á leik en tökum á myndinni lýkur formlega í byrjun júní. „Tökur hafa gengið vonum framar mundi ég segja. Ég hef aðeins fengið að líta yfir upptökurnar í lok hvers dags og útlitið á myndinni kemur mér skemmtilega á óvart. Það er mikið af ofbeldi og viðbjóði svo útlitið er ansi hart og gróft. Það verður spennandi að sjá hvernig myndinni verður tekið. “-áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.