Innlent

Nauðgarar hræða þolendur frá því að leggja fram kæru

Eyrún Jónsdóttir segir þolendur nauðgana oft upplifa nákvæmar og berorðar lýsingar atvika í fjölmiðlum eins og annað áfall. Í sumum tilvikum hræði þær konurnar frá því að kæra.
Fréttablaðið/Anton
Eyrún Jónsdóttir segir þolendur nauðgana oft upplifa nákvæmar og berorðar lýsingar atvika í fjölmiðlum eins og annað áfall. Í sumum tilvikum hræði þær konurnar frá því að kæra. Fréttablaðið/Anton
Færst hefur í vöxt að karlmenn sem nauðga konum hóti þeim til þess að fæla þær frá því að kæra málið til lögreglu. Meira ber á ófyrirleitni gerenda en áður og þolendur eru hræddari við þá. Þetta segir Eyrún Björg Jónsdóttir, verkefnisstjóri Neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisofbeldis. „Umhverfið er að breytast og því miður fylgja þessar hliðar svona málum þannig að konur óttast að ef þær kæri hafi þær verra af. Þeim er beinlínis hótað því.“

Fram hefur komið í Fréttablaðinu að kærur vegna kynferðisbrota hafa streymt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum mánuðum. Fyrstu fjóra mánuði ársins voru þær 76 talsins, þar af 33 vegna nauðgunar.

Eyrún segir að málum hafi ekki fjölgað hjá Neyðarmóttökunni í ár miðað við undangengin ár. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins leituðu 40 til móttökunnar. Eyrún segir málafjölda hvers árs um 120 og um 40 til 45 þolendur kæri til lögreglu. Hluti af þjónustu neyðarmóttökunnar er að útvega þolanda réttargæslumann og setja málið í ákveðið ferli.

„Fjöldi kæra frá okkur er svipaður frá ári til árs. Þarna er því um að ræða fjölgun mála sem koma annars staðar frá eins og yfirmaður kynferðisbrotadeildar benti á í blaðinu,“ segir Eyrún.

Þá segir Eyrún að ekki komi bara konur á neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Í fyrra hafi átta karlmenn komið. Árin á undan hafi þeir verið á bilinu einn til sex. Enginn hafi komið það sem af er þessu ári.

Eyrún segir oft erfitt fyrir þolendur kynferðisofbeldis hversu berorðar og nákvæmar lýsingar atvika séu í fjölmiðlum. „Þetta upplifa brotaþolar oft sem annað áfall,“ útskýrir hún. „Konurnar hafa jafnvel ekki einu sinni sagt sínum nánustu frá eðli atburðarins og þær upplifa það sem algjöra berskjöldun og ógn við sjálfsmynd þeirra að hægt skuli vera að japla svona á þessum málum.“

Eyrún segir að þolendur búist við opinskárri umfjöllun og í einhverjum tilvikum hræði hún þá frá því að kæra.

jss@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.