Erlent

Blóðbaði hótað í norskum skóla

Um 500 nemendur urðu að yfirgefa barnaskóla í Bergen í gær vegna hótunarbréfs sem barst norsku dagblaði.
Um 500 nemendur urðu að yfirgefa barnaskóla í Bergen í gær vegna hótunarbréfs sem barst norsku dagblaði.
Gimle-barnaskólinn í Bergen í Noregi var rýmdur í gær vegna hótunarbréfs um að árás yrði gerð á skólann. Norska dagblaðinu Verdens Gang barst bréfið í tölvupósti í gærmorgun. Þar stóð að blóðbað myndi eiga sér stað í skólanum og var sérstaklega tekið fram að múslimar yrðu skotmörk.

„Allir nærstaddir munu deyja, þá sérstaklega múslimar. Vopnunum hefur verið komið tryggilega fyrir í töskunum og eru tilbúin til notkunar,“ var meðal þess sem stóð í bréfinu, samkvæmt fréttastofu norska ríkissjónvarpsins. Forsvarsmenn Verdens Gang höfðu samband við lögreglu um leið og bréfið barst ritstjórninni og var skólabyggingin rýmd í kjölfarið.

Um 500 nemendur skólans voru færðir út úr byggingunni og kom fjölmennt lið lögreglu að aðgerðinni. Leitað var í töskum nemenda og þeir hafðir undir ströngu eftirliti. Sérsveit lögreglu kom sér fyrir á nærliggjandi húsþökum til þess að fylgjast með mannaferðum.

Ekki er vitað hvort alvara var á bakvið hótunina, en talskona lögreglunnar, Gry Halseth, segir ekkert grunsamlegt hafa fundist á skólalóðinni. Rannsókn lögreglu á uppruna bréfsins stendur yfir.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×