Enski boltinn

Þeir sem ekki kunna að meta Jackson geta farið til helvítis

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Al-Fayed er ánægður með styttuna.
Al-Fayed er ánægður með styttuna.
Það eru afar skiptar skoðanir á þeirri ákvörðun Mohamed Al-Fayed, eiganda Fulham, að setja styttu af poppgoðinu Michael Jackson fyrir framan heimavöll félagsins, Craven Cottage.

Sumir stuðningsmenn félagsins segja að félagið sé aðhlátursefni um allt landið. Al-Fayed tekur gagnrýni stuðningsmannanna illa og segir að þeir sem kunni ekki að meta styttuna geti farið til helvítis.

"Af hverju er þetta skrýtið? Það er fullt af stuðningsmönnum sem elska styttuna. Ef einhverjir heimskir stuðningsmenn skilja ekki og kunna ekki að meta hvað Jackson gaf heiminum þá geta þeir farið til helvítis. Ég vil ekki hafa slíka stuðningsmenn," sagði Al-Fayed hvass.

Styttan átti upprunalega að vera í Harrods-búðinni hans en hann hefur nú selt hana. Þess vegna endaði styttan fyrir utan Craven Cottage.

Jackson og Al-Fayed voru vinir og Jackson mætti á leik með Fulham árið 1999.

"Hann elskaði að mæta á völlinn og hljóp um allt eins og lítið barn. Hann elskaði þennan stað. Hann elskaði Fulham og vildi helst mæta á alla leiki félagsins. Þessi stytta á eftir að slá í gegn og fólk alls staðar að mun standa í röð til þess að sjá hana," sagði Al-Fayed.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×