Innlent

Fangaverðir mótmæla einsmanns vöktum

Mynd/Heiða
Norrænir fangaverðir gagnrýna harðlega þann hátt sem víða er hafður á í fangelsum á Norðurlöndum að hafa fangaverði eina á vakt. Samtök Norrænna fangavarða halda í dag ráðstefnu í Stokkhólmi og þar voru þessi mál rædd en málið hefur komist í hámæli eftir að kvenfangavörður í Svíþjóð var barin til dauða af fanga. Konan, sem var 25 ára gömul, var alein á vaktinni þegar árásin átti sér stað.

Sigurður Torfi Guðmundsson varaformaður Fangavarðafélags Íslands segir að íslenskir fangaverðir taki heilshugar undir gagnrýnina en það hefur tíðkast í langan tíma í fangelsunum á Kvíabryggju og á Akureyri að hafa fangaverði eina á næturvakt. Þessu hafi verið mótmælt ítrekað án árangurs.

Formaður Norrænu nefndarinnar NFU , Kim Østerbye segir algjörlega óásættanlegt að ætlast til þess hafa fangaverði aleina á vakt. „Það þýðir að fangavörðurinn upplifir mikla streitu og sálrænt  áreiti í starfi sem  eykur áhættuna á ofbeldi og hótunum .Þetta sást glöggt í síðustu viku þegar árás var gerð á fangavörð," segir Kim.   

NFU skorar á stjórnvöld  í öllum fimm löndunum að koma í veg fyrir einsmannsvaktir.

„Við höfum hrópað hátt um þetta í mörg ár. Einsmannsvaktir skapa stórhættu út frá öryggissjónarmiðum. Stjórnvöld verða að skapa ásættanlegt vinnuumhverfi fyrir fangaverði og þá sem starfa í fangelsum,“ segir formaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×