Enski boltinn

L'Equipe: Frakkarnir hjá Arsenal vilja komast burt frá félaginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samir Nasri
Samir Nasri Mynd/AFP
Franska blaðið L'Equipe heldur því fram að Samir Nasri og fjórir landar hans hjá Arsenal vilji komast burt frá félaginu í sumar. Nasri hefur átt sitt besta tímabil með Arsenal en fær ekki að spila sína uppáhaldsstöðu þegar fyrirliðinn Cesc Fabregas er heill.

L'Equipe hefur heimildir fyrir því að Inter Milan hafi mikinn áhuga á Nasri sem vill helst spila á miðjunni fyrir aftan sóknarlínuna en þarf jafnan að sætta sig við það spila út á kanti þar sem Fabregas er fyrsti kostur stjórans Arsene Wenger í hans uppáhaldsstöðu.

Franska stórblaðið heldur því fram að frönsku leikmennirnir séu orðnir mjög pirraðir yfir titlaleysinu hjá félaginu og að þeir sjái meiri möguleika á að vinna titla annarsstaðar en hjá Arsenal sem hefur ekki unnið titil frá árinu 2005.

Hinir fjórir leikmennirnir sem eru nefndir til sögunnar í þessum franska óánægjuhóp eru Abou Diaby, bakverðirnir Bacary Sagna og Gael Clichy og miðvörðurinn Sebastien Squillaci. Abou Diaby vill helst komast til liða eins og Chelsea, Manchester City, Inter og Juventus. Miðvörðurinn Laurent Koscielny vill aftur á móti vera áfram hjá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×