Fótbolti

Blatter er ekki fúll út í Englendinga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sepp Blatter, forseti FIFA, segist ekki ætla að hefna sín á enska knattspyrnusambandinu fyrir að reyna að fresta forsetakosningunum á ársþingi FIFA í gær.

Blatter var einn í framboði og hlaut yfirburðakosningu - alls 186 atkvæði af 208 mögulegum. Fyrr um daginn hafði England borið upp frestunartillögu en hún hlaut aðeins sautján atkvæði og var kolfelld.

„Það eru engar slæmar tilfinningar gagnvart þeim knattspyrnusamböndum sem kusu mig ekki,“ sagði Blatter við fjölmiðla í gær.

„Ég er forseti fyrir öll samböndin og mun vinna með þeim öllum. Ég er stoltur af þeim 186 atkvæðum sem ég fékk. Ekki hafa áhyggjur af þeim ensku.“

„Enska knattspyrnusambandið stofnaði íþróttina árið 1863 og er fyrsti meðlimur FIFA. Þeir eiga rétt á því að kalla sig Knattspyrnusambandið (The Football Association) og ættu að vera öðrum fyrirmynd. Þetta kom því nokkuð á óvart.“

„Ég hafði heyrt um þessa tillögu og veit að Knattspyrnusamband Evrópu hélt sérstakan fund til að reyna að sannfæra þá. Ég héld að þetta vandamál myndi leysast og því kom það mér á óvart þegar þeir reyndu að breyta dagskrá þingsins og fresta kosningunum.“

KSÍ greiddi Blatter sitt atkvæði í kosningunum en forsetinn þykir afar umdeildur í sínum störfum og er sérstaklega óvinsæll í Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×