Innlent

Tjaldbúðirnar á Austurvelli fjarlægðar

Mynd/Sigurjón
Tjöld sem mótmælendur höfðu komið fyrir á Austurvelli voru fjarlægð í dag. Tjaldbúðirnar voru settar upp af hópi fólks sem kallar sig Occupy Reykjavík en mótmæli af þessum toga hafa breiðst út um heimsbyggðina frá því Occupy Wall Street mótmælin hófust fyrir nokkrum mánuðum. Í gær fjarlægðu starfsmenn borgarinnar með aðstoð lögreglu eitt tjald sem sett hafði verið upp og var einn mótmælandi handtekinn í þeirri aðgerð.

Fleiri tjöld voru reist í gærkvöldi og hafa þau fengið að standa þar í dag. Lögreglan fór hinsvegar af stað um klukkan fjögur í dag og bað mótmælendur um að fjarlægja tjöldin. Ástæðan er sú að ekki hefur verið sótt um leyfi fyrir því að tjalda á Austurvelli en það er alla jafna bannað. Að sögn lögreglu urðu mótmælendurnir við þeirri beiðni og eru tjöldin því farin af Austurvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×