Enski boltinn

Torres: Var búinn að ákveða að fara áður en tilboð Chelsea kom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres og Carlo Ancelotti.
Fernando Torres og Carlo Ancelotti. Mynd/AP

Fernando Torres, sagði á blaðamannafundi í dag, að hann hafi verið búinn að ákveða það að fara frá Liverpool um miðjan síðasta mánuð eða mörgum dögum áður en Chelsea bauð fyrst í hann.

Liverpool hafnaði fyrsta tilboði Chelsea í Torres fjórum dögum áður en félagsskiptaglugginn lokaði en Torres hefur greint frá því að hann hafi ákveðið að yfirgefa Anfield um 10 til 12 dögum áður en glugginn lokaði. Chelsea keypti hann síðan fyrir metupphæð á lokadegi félagsskiptagluggans á mánudaginn.

„Um leið og ég vissi um að Liverpool og Chelsea væru að tala um mig þá sagði ég þeim að ég væri búinn að taka ákvörðun. Ég fór strax til stjórans og sagði honum að ég vildi fara," sagði Fernando Torres.

„Ég get ekki sagt neitt slæmt um Liverpool en ég skil alveg ef stuðningsmennirnir eru reiðir. Ég vildi bara fá að segja mína hlið á málinu," sagði Torres sem ýjaði að því að brotthvarf leikmanna eins og Xabi Alonso og Javier Mascherano hafi haft síns áhrif.

„Liverpool hefur mikinn metnað og félagið er að gera allt rétt til þess að komast aftur á toppinn. Það mun hinsvegar taka tíma og ég hef ekki þann tíma," sagði Torres.

„Ég var Liverpool-maður í gegn en skildi það ekki þegar nokkrir leikmenn fóru frá liðinu. Þeir gerðu það besta fyrir sig, fjölskyldu sína og ferilinn," segir Torres en hann hefur ekki áhyggjur af pressunni sem kemur með svo stórum verðmiða.

„Ég hef verið í þessari stöðu áður þegar ég kom til Liverpool - að vera keyptur fyrir mikinn pening og hafa miklar væntingar bundnar til mín. Ég er tilbúinn fyrir þessa áskorun," segrir Torres.

„Þetta verður samt skrýtin staða fyrir mig því eg á marga vini í Liverpool," sagði Torres.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×