Erlent

Tveir látist í fellibylnum - 300 þúsund rafmagnslausir

Fellibylurinn er að sækja í sig veðrið.
Fellibylurinn er að sækja í sig veðrið. Mynd AP
Tveir hafa látist eftir að fellibylurinn Írena gekk á land á austurströnd Bandaríkjanna. Annar maðurinn ók á tré sem féll á veginn fyrir framan hann á meðan hinn maðurinn fékk hjartaáfall þar sem hann var að negla plötur fyrir gluggana á húsi sínu.

Bylurinn er nú verstu í Norður-Karólínu og Virginíu en þar hefur rafmagnið farið af stóru svæði. Talið er að yfir 300 þúsund heimili séu rafmagnslaus.

Óveðrið hefur mikil áhrif á flugsamgöngur en talið er að aflýsa verði yfir átta þúsund flugferðum á meðan Írena gengur yfir. Talsmaður flugumferðaeftirlitsins segir að það geti tekið farþega allt að fjóra daga að komast leiðar sinnar.

Mikil rigning er í New York er fellibylurinn stefnir á borgina. Vísir ræddi við Breka Logason, fréttamann Stöðvar 2, sem er staddur í borginni ásamt eiginkonu sinni. Hann sagði allar búðir lokaðar og að andrúmsloftið í borginni væri undarlegt.

Flestir borgarbúar hafa aldrei upplifað fellibyl á svæðinu áður.

Talið er að skemmdir vegna óveðursins á strandlengjur meðfram austurströnd Bandaríkjanna, þar sem um 65 milljónir Bandaríkjamanna búa, geti numið 12 milljörðum dollara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×