Fótbolti

Stjóri Celtic áfrýjaði og fékk sex leikja bann í andlitið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neil Lennon, stjóri Celtic, er skapheitur maður.
Neil Lennon, stjóri Celtic, er skapheitur maður. Mynd/AP
Neil Lennon, stjóri Celtic, var í dag dæmdur í sex leikja bann, af aganefnd skoska knattspyrnusambandsins, fyrir hegðun sína gagnvart fjórða dómaranum í 2-0 tapi Celtic á móti Eggerti Gunnþóri Jónssyni og félögum í Hearts í nóvember.

Lennon missti algjörlega stjórn á sér þegar Celtic fékk ekki vítaspyrnu þegar einn leikmaður Hearts virtist handleika boltann innan teigs. Craig Thomson, dómari leiksins, endaði síðan á því að reka Lennon upp í stúku fyrir hegðun sína gagnvart fjórða dómaranum á hliðarlínunni.

Lennon fékk upphaflega tveggja leikja bann en áfrýjaði dómnum. Það gekk ekki betur en svo að refsingin var þrefölduð. Lennon getur enn áfrýjað dómnum en það er ekki miklar líkur á því að hann láti aftur reyna á það.

Bannið hjá Lennon byrjar í heimaleik á móti Aberdeen 22. janúar næstkomandi og mun meðal annars missa af deildarleikjum á móti Hearts og Dundee Utd og bikarleik á móti Rangers. Lennon fær hinsvegar að stjórna Celtic á móti Rangers í deildinni 22. febrúar.

Johan Mjallby, aðstoðarmaður Lennon, mun stjórna Celtic-liðinu þennan tæpa mánuð sem Lennon tekur út bannið sitt. Celtic er eins og er með fjögurra stiga foskot á Rangers en Rangers-liðið á reyndar tvo leiki inni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×