Fótbolti

Risa vináttulandsleikir í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það verða flottir landsleikir spilaðir í kvöld en þá fara fram fjölmargir vináttulandsleikir. Það eru sex vikur í að undankeppni EM 2012 fari aftur af stað á nýjan leik og er Ísland aðeins ein af fjórum Evrópuþjóðum sem eru ekki að spila í þessari viku. Hinar eru Færeyjar, Svartfjallaland og Litháen.

Það er mikil spenna fyrir fyrsta einvígi Cristiano Ronaldo og Lionel Messi með landsliðum sínum en þeir hafa mæst nokkrum sinnum með félagsliðum sínum Real Madrid og Barcelona. Báðir eru þessir snillingar í hópi allra bestu leikmanna heims og þeir hafa báðir þegar skorað 24 sinnum fyrir lið sín í spænsku úrvalsdeildinn á þessu tímabili. Landslið þeirra, Argentína og Portúgal, mætast í Genf í Sviss í kvöld.

Þjóðverjar og Ítalar hafa spilað nokkra eftirminnilega leiki á HM í gegnum tíðina og mætast í Dortmund í kvöld. Ítalar hafa unnið tvo eftirminnilega leiki á leið sinni að síðustu tveimur heimsmeistaratitlum sínum, unnu 3-1 sigur í úrslitaleiknum 1982 og 2-0 sigur í framlengingu í undanúrslitaleiknum á HM í Þýskalandi 2006. Sá leikur fór einmitt fram á Signal Iduna Park í Dortmund og geta Þjóðverjar því loksins hefnt fyrir það tap á sama stað í kvöld.

Frakkar og Brasilíumenn eru að byggja upp ný landslið og þau mætast á Saint-Denis í París í kvöld þar sem Frakkar unnu 3-0 sigur þegar þjóðirnar mættustu í úrslitaleiknum á HM 1998. Mano Menezes, þjálfari Brasilíumanna hefur valið hóp þar sem meðalaldurinn er aðeins 25 ár en Laurent Blanc, þjálfarim Frakka, er að reyna að rífa franska landsliðið upp eftir skandalinn í Suður-Afríku síðasta sumar.

Það verður líka athyglisverður leikur á Parken í Kaupamannahöfn þar sem Danir taka á móti Englendingum en Danir eru eins og kunngt er með okkur Íslendingum í riðli í undankeppni EM alveg eins og Portúgalir, Norðmenn (mæta Pólverjum í kvöld) og Kýpverjar (töpuðu 0-2 fyrir Svíum í gær).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×