Erlent

Sáttasemjarinn gafst upp og yfirgaf landið

Saleh forseti situr enn sem fastast í Jemen og nú hefur fulltrúi Persaflóaríkja gefist upp á að reyna að miðla málum. Fréttablaðið/AP
Saleh forseti situr enn sem fastast í Jemen og nú hefur fulltrúi Persaflóaríkja gefist upp á að reyna að miðla málum. Fréttablaðið/AP
Fulltrúi ríkja við Persaflóa, sem reynt hefur að sætta stjórn og stjórnarandstöðu í Jemen að undanförnu, gafst upp á dögunum og hefur yfirgefið landið.

 

Eftir langvarandi mótmæli í landinu fagnaði stjórnarandstaðan innilega þegar Ali Abdúlla Saleh forseti samþykkti, í síðasta mánuði, að draga sig í hlé eftir rúm þrjátíu ár á valdastóli í skiptum fyrir friðhelgi.

 

Síðan þá hafa málin verið í upplausn og Saleh neitar að víkja fyrr en öllum mótmælum verði hætt í landinu.

 

Fulltrúi Persaflóaríkjanna, Bareininn Abdul-Latif al-Zayyani, kom því til landsins fyrir stuttu í þeim tilgangi að ná sáttum milli aðila. Saleh og stjórnarandstaðan gerðu hins vegar sífellt fleiri kröfur hvort úr sinni áttinni þannig að al-Zayyani gafst að lokum upp á miðvikudag og hélt til síns heima.

 

Bandaríkin tóku óvænt skref á miðvikudag þegar aðstoðarmaður Baracks Obama forseta hvatti Saleh til að ganga að samningnum sem Persaflóaríkin buðu.

Er þar um stefnubreytingu að ræða því að Bandaríkin hafa litið á Saleh sem mikilvægan samherja í baráttunni gegn hryðjuverkum.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×