Erlent

Hreifst af mótmælum araba

Osama bin Laden reynir að sýnast þátttakandi í mótmælum almennings í ríkjum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda.
Osama bin Laden reynir að sýnast þátttakandi í mótmælum almennings í ríkjum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda. Mynd/AFP
„Vindar breytinga munu breiðast út um allan hinn íslamska heim, ef guð lofar," sagði Osama bin Laden nokkru áður en bandarískir sérsveitarmenn réðust til inngöngu í felustað hans í Pakistan og skutu hann til bana.

Þetta kemur fram á hljóðupptöku sem birt var á vefsíðum herskárra múslima í gær.

Á upptökunni reynir hann að koma þeim boðskap til skila, að hann styðji ólguna í arabaheiminum síðustu mánuði. Hann minnist sérstaklega á uppreisnina í Túnis og Egyptalandi, en minnist ekki á ólguna í Sýrlandi, Líbíu og víðar, sem gæti bent til þess að upptakan hafi verið gerð fyrir allnokkrum vikum.

Ólgan í arabaheiminum er engu að síður mjög frábrugðin þeim herskáa strangtrúarboðskap sem bin Laden hefur talað fyrir. Mótmælendur hafa undantekningarlítið komið boðskap sínum á framfæri með friðsamlegum hætti.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×