Innlent

Við erum ekki næstfeitust - í versta falli sjötta feitasta þjóðin

Við erum ekki næst feitasta þjóðin á Vesturlöndum samkvæmt Stefáni Hrafni Jónssyni, lektor við HÍ, sem gagnrýnir fjölmiðla og rannsókn sem var gerð um offitu Íslendinga. Í fréttum Stöðvar 2 var því haldið fram að Íslendingar væru orðnir næstfeitasta þjóð, ýmist í heimi, á Vesturlöndum eða meðal OECD-ríkja, næst á eftir Bandaríkjamönnum.

Í grein sem Stefán skrifaði og birtist á Vísi í dag segir hann framsetningu rannsóknarinnar villandi og fréttin um að við værum orðin næst feitasta þjóðin einfaldlega röng.

„Áhugavert er að vita hvernig slík villa kemst í fréttatíma. Líklega er um að ræða sambland af fjórum þáttum. Ruglingur í meðferð hugtaka, skort á gagnrýnum lestri upplýsinga, of hröð vinnubrögð á fréttastofum og of frjálsleg framsetning niðurstaðna í skýrslu," skrifar Stefán Hrafn.

Svo skrifar Stefán Hrafn:

Stefán Hrafn Jónsson.
„Líklegt má telja að hefðu fréttamenn gefið sér betri tíma í vinnslu fréttarinnar og kynnt sér helstu hugtök hefði þessi ranga frétt ekki farið í loftið.

Hins vegar er rétt að benda á að skýrslan sjálf var ekki nægjanlega vel unnin. Í skýrslunni er nokkrum þjóðum raðað á lista eftir því hversu stór hluti íbúa er samtals annars vegar í ofþyngd og hins vegar í offitu.

Á þennan lista vantar nokkrar af þeim þjóðum sem líklegar eru til að ná hátt ef gögn væru aðgengileg. Við erum sem sagt næsthæst á meingölluðum samanburði sem byggir á meingallaðri mælingu."

Hversu feit erum við þá?

Stefán Hrafn skrifar: „Við lesum rétt úr umræddri skýrslu og sjáum að Íslendingar eru alls ekki næst feitust í heimi. Við erum í sjötta sæti á lista allmargra þjóða, á eftir Bandaríkjamönnum, Mexíkómönnum, Nýsjálendingum, Bretum og Austurríkismönnum. Við gætum mögulega verið enn neðar ef mælingar fást frá fleiri löndum."

Hægt er að lesa grein Stefáns í heild sinni í viðhengi hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Eru Íslendingar feitastir?

Nýlega var fjallað um í fréttum sjónvarpsstöðvar að Íslendingar væru orðnir næstfeitasta þjóð, ýmist í heimi, á Vesturlöndum eða meðal OECD-ríkja, næst á eftir Bandaríkjamönnum. Nokkuð var fjallað um málið í dægurmálaþáttum á útvarpsstöðvum og ljóst var á máli fjölmiðlafólks að það hafði töluverða áhyggjur af heilsu og velferð samlanda sinna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×