Eins og fram hefur komið lést tónlistamaðurinn Sigurjón Brink langt fyrir aldur fram á heimili sínu í síðustu viku. Hann hafði komið lagi að í Söngvakeppni Sjónvarpsins og um tíma ríkti óvissa um hvort lagið, sem kallast Aftur heim, yrði flutt í keppninni. Að endingu tók fjölskylda Sigurjóns þá ákvörðun að halda laginu inni í keppninni og keppir það í kvöld. Sex nánir vinir Sigurjóns munu flytja það: Hreimur, Vignir Snær Vigfússon, Gunnar Ólason, Benedikt Brynleifsson, Pálmi Sigurhjartarson og Matthías Matthíasson.
Lagið sjálft er eftir Sigurjón en textann gerði eiginkona hans, Þórunn Erna Clausen. Hreimur segir að Þórunn hafi hringt í hvern og einn þeirra og spurt hvort þeir treystu sér til að flytja lagið í keppninni. Hreimur var aldrei í neinum vafa hvert svar hans væri.

Hreimur segir síðustu tvær vikur hafa verið ákaflega erfiðar, þær hafi liðið eins og tvö ár. „Þetta hafa verið þung spor og jarðarförin hans var einn af þessum áföngum til að hjálpa okkur að klára þetta og gera andlát hans upp. Við höfum oft grínast með það tónlistarmennirnir að við horfum ekkert of mikið til baka því við erum svo uppteknir af því sem er að gerast á morgun. Þessar tvær vikur hafa kennt manni að maður á að njóta þess að vera til og forgangsraða rétt. Sigurjón var með sína forgangsröðun á hreinu, hann fékk bara ekki tíma til að klára sitt."
freyrgigja@frettabladid.is