Enski boltinn

Cantona: Karatesparkið var hápunkturinn á ferlinum

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Eric Cantona er einn dáðasti leikmaður allra tíma hjá stuðningsmönnum Manchester United og afrek hans á fótboltavellinum voru stórkostleg. Cantona gerði einnig margt sem var frekar vafasamt og þar má nefna árás hans á stuðningsmann Crystal Palace árið 1995. Cantona fékk langt keppnisbann í kjölfarið en hann segist ekki sjá eftir neinu og hinn litríki persónuleiki segir að „karatesparkið" sé einn af hápunktum hans á ferlinum.

Cantona fékk rautt spjald í leiknum gegn Crystal Palace og skömmu síðar stökk hann upp í áhorfendastúkuna og sparkaði í Matthew Simmons stuðningsmann Crystal Palace.

Cantona tók nýverið tók við framkvæmdastjórastöðu hjá bandaríska atvinnumannaliðinu New York Cosmos. Hann var spurður af fréttamanni BBC hvað væri hápunktur ferilsins og svarið var einfalt. „Þegar ég tók karatesparkið á fótboltabulluna. Slíkir menn eiga ekki að vera á fótboltaleikjum," sagði Cantona.

„Ég held að það séu margir sem hafi látið sig dreyma um að gera þetta – að sparka í slíkar fótboltabullur. Ég gerði þetta fyrir þá. Þeir eru eflaust ánægðir og eru frjálsari fyrir vikið," bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×