Erlent

Pútín bregst við niðurstöðu þingkosninga

Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands.
Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands. mynd/AFP
Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, segir niðurstöðu þingkosninga fyrr í mánuðinum vera vonbrigði. Flokkur hans tapaði fylgi en heldur þó um stjórnartaumana í landinu. Pútín sagði vangaveltur um víðtækt kosningasvindl vera án rökstuðnings en viðurkenndi þó rétt Rússa til að mótmæla framkvæmd kosninganna.

Pútín lét ummælin falla í gær en hann sat fyrir spurningum í árlegu sjónvarpsviðtali. Hann sagði það vera hlutverk stjórnarandstöðunnar að berjast gegn ráðandi öflum og benda á mistök stjórnvalda - því sé niðurstaða kosninganna eðlileg.

Framkvæmd kosninganna hefur verið mótmælt víða í Rússlandi og hafa fregnir borist af víðtæku kosningasvindli. Pútín sagðist fagna mótmælunum, þá sérstaklega þátttöku ungs fólks í þeim.

Hann sagði brýna þörf vera á að framkvæmd forsetakosninganna á næsta ári verði góð. Hann vill koma í veg fyrir ásakanir um kosningasvindl og er reiðubúinn að betrumbæta eftirlit á kosningastöðum. Pútín stakk upp á því að vefmyndavélum yrði komið fyrir á kosningastöðum til að fyrirbyggja ásakanir um kosningasvindl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×