Erlent

Réðust inn í sendiráð Sádí-Arabíu og Katars

Frá Sádí Arabíu
Frá Sádí Arabíu
Æstur múgur réðst inn í sendiráð Sádí-Arabíu og Katar í Damaskus í gærkvöldi eftir að samtök Arabaríkja greiddu atkvæði um að vísa Sýrlandi úr samtökunum fyrir að ganga of hart fram gegn mótmælendum.

Fjölmennur hópur stuðningsmanna Bashar al-Assad Sýrlandsforseta réðst inn í sendiráðin í Damaskus, höfuðborg landsins, í mótmælaskyni. Ákveðið hefur verið að vísa Sýrlandi úr samtökum Arabaríkja þann 16.nóvember ef þarlend stjórnvöld láta ekki af drápum á mótmælendum en talið er að yfir 3500 manns hafi fallið fyrir hendi þeirra frá því að mótmæli hófstu gegn ríkisstjórn landsins fyrir sjö mánuðum.

Hundruð manna söfnuðust saman fyrir utan sendiráðin tvö að lokinni atkvæðagreiðslu, grýttu þau og létu vel heyra í sér með hrópum. Sendiráð Sádí-Arabíu var illa farið eftir þá sem fóru þar inn en gluggar voru brotnir og öllu snúið á hvolf. Þá vanvirtu sýrlensku mótmælendurnir fána Katar, en honum skiptu þeir út fyrir sinn eiginn.

Vestrænar þjóðir sem og Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt blessuð sína yfir ákvörðun Arabaríkjanna. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur meðal annars lofað aðgerðirnar og Utanríkisráðherra Frakklands hvetur alþjóðasamfélagið til að grípa til frekari aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×