Innlent

Bjarni varði ákvörðun sína í Icesave

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni varði ákvörðun sína í Icesavemálinu.
Bjarni varði ákvörðun sína í Icesavemálinu. mynd/ anton.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varði ákvörðun sína í Icesavemálinu við setningu landsfundar flokksins í dag. Fundurinn var settur klukkan fimm. Bjarni gagnrýndi jafnframt frammistöðu ríkisstjórnarinnar í málinu.

Eins og kunnugt er greiddi Bjarni atkvæði með þeim Icesave samningum sem urðu til þegar Lee Buchheit stýrði samninganefnd Íslands. Bjarni sagði á fundinum að með afstöðu sinni til þeirra samninga hefði hann ekki gengið gegn ályktun landsfundar sjálfstæðisflokksins.

„Áður en landsfundur ályktaði tók ég málið upp við alla forsætisráðherra Norðurlandanna á Norðurlandaráðsþingi. Ég flaug til Kaupmannahafnar í þeim tilgangi einum að eiga fund með utanríkisráðherra Danmerkur til að afla stuðnings við okkar sjónarmið. Ég fór einnig til Hollands til fundar við hollenska og breska ráðherra til að útskýra sjónarmið okkar Íslendinga. Um haustið 2010 sótti ég auk þessa landsfund Breska íhaldsflokksins fyrst og fremst í þeim tilgangi að ná fundi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Bretlands. Það tókst og þar krafðist ég þess að Bretar létu af kröfum sínum í málinu. Og allt þetta hafði áhrif. Málið var gjörbreytt þegar eftir þessa miklu baráttu," segir Bjarni.

Hann segir að niðurstaða sín í Icesave málinu hafi verið byggð á því sem hann taldi best og skynsamlegast fyrir íslenska þjóð, fyrir íslenska hagsmuni. „Það voru hagsmunir heildarinnar, þjóðarinnar allrar, sem drifu mig áfram í Icesave málinu. Ég segi fullum fetum: ég er stoltur af þeim mikla árangri sem viðspyrna okkar á Alþingi skilaði. Málinu er enn ekki lokið - angar þess eru fyrir dómstólum í Evrópu. Endanleg málalok fást hins vegar ekki að lögum nema fyrir íslenskum dómstólum," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×