Innlent

Gnarr heimsótti Occupy Wall Street með apagrímu á hausnum

Jón Gnarr borgarstjóri var staddur í New York um helgina þar sem hann tók þátt í ráðstefnu sem útvarpsstöð þar í borg stóð fyrir og fjallaði um framtíð útvarpsins. Jón var málshefjandi á ráðstefnunni en virðist þó ekki hafa fjallað mikið um útvarp í ræðu sinni ef marka má umfjöllun blaðakonunar Melenu Ryzik á bloggsíðu New York Times. Jón lýsti Besta flokknum fyrir ráðstefnugestum og sagði hann fyrsta „stjórnleysis - súrealista" flokk sögunnar. Flokkurinn hefur enga heimspeki að hans sögn, allt sé byggt á vitleysu. „Ég trúi á vitleysuna," sagði Jón og bætti reyndar við að grín sé hans trúarbrögð.

Jón tjáði sig einnig um íslensku krónuna sem hann segir vera „drasl". Evran sé hinsvegar einfaldlega „ekki svöl". Hann ræddi einnig um inngöngu Íslands í Evrópusambandið og sagði að Tyrkir ættu að fara inn á undan Íslendingum. Þeir séu búnir að bíða lengur og þessvegna væru það mannasiðir að hleypa þeim fyrst inn.

„Mér er sama hvort fólki líki við mig eða ekki," segir Jón einnig. „Eitt af mínum persónulegu markmiðum er að eyðileggja þessa ímynd sem búin hefur veið til af leiðtoganum."

Að lokum er tekið til þess að Jón sé aðdáandi South Park og þessvegna hafi hann langað til þess að sjá „The Book of Mormon," sem félagarnir Matt Stone og Trey Parker hafa sett upp á Broadway. Honum fannst miðarnir hinsvegar vera of dýrir.

„Í staðinn heimsótti herra Gnarr Occupy Wall Street, klæddur í svartan jakkafatajakka og með appelsínugula órangútagrímu á haudnum."Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.