Erlent

Hljóp maraþon og eignaðist barn sama dag

Amber Miller með June litlu í fanginu.
Amber Miller með June litlu í fanginu.
Hin bandaríska Amber Miller er sennilega það sem flestir myndu kalla ofurkonu. Amber var komin 39 vikur á leið þegar hún ákvað að taka þátt í Chicago maraþoninu sem fram fór í borginni í gær.

Eftir að hafa fengið leyfi frá læknum ákvað hún að hlaupa maraþon kasólétt. Maðurinn hennar hljóp með henni til þess að sýna henni stuðning.

Amber hljóp ekki alla leið, hún skokkaði og gekk á víxl. Í miðju maraþoninu fór hún að finna fyrir samdráttarverkjum, en hún harkaði engu að síður af sér og kláraði hlaupið með sóma á sex og hálfri klukkustund. Alls hljóp hún 42 kílómetra.

Þegar hún var komin yfir endalínuna var talsvert erfiðari raun eftir. Henni var ekið beint upp á spítala þar sem hún eignaðist dóttur sína, June. Það er annað barn Ambers sem er 27 ára gömul.

Í viðtali við NBC í Chicago sagði Amber: „Ég finn ekkert fyrir maraþoninu. Við hverju er svo sem að búast eftir að maður eignast barn."

Ekki nóg með að Amber hafi klárað heilt maraþon og fætt barn á sama deginum. Þá sigraði hún manninn sinn sem hélt ekki í við hana síðasta spölinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×