Innlent

Jón Ásgeir skipti sér ekki af skattskilunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stefán Hilmarsson bar vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Stefán Hilmarsson bar vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Mynd/gva
Stefán Hilmarsson, sem var endurskoðandi fyrir fjárfestingafélagið Gaum og Baug þegar félögin voru stofnuð, segist hafa séð um skattskýrslugerð fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson persónulega á þeim tíma líka. Stefán bar vitni við aðalmeðferð skattahluta Baugsmálsins í morgun. Stefán sagði að hann og Ragnar Þórhallsson hefðu annast framtalsgerð fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson saman. Jón Ásgeir hafi ekki sjálfur skipt sér af þeirri framtalsgerð.

Í málinu, sem nú er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, er Jón Ásgeir meðal annars sakaður um að hafa ekki talið fram til skatts tekjur sem hann hafði í formi hlunninda. Þar er meðal annars átt við greiðslur líftryggingariðgjalda. Stefán sagðist bera ábyrgð á því hvernig gert hefði verið grein fyrir þessum greiðslum. Það hafi hann gert með hliðsjón af þremur úrskurðum yfirskattanefndar. Hann hafi því stuðst við fordæmi þegar hann hafi ákveðið hvernig hann hafi gert þetta.

Jón Ásgeir er líka ákærður fyrir að hafa ekki talið fram tekjur sem hann hafði í formi bifreiðahlunninda vegna afnota af þremur bílum í eigu fjárfestingafélagsins Gaums. Um var að ræða Porsche, Hummer og Cherokee sem Gaumur átti. Stefán segir að Jón Ásgeir hafi sjálfur átt eigin bíla sem hann hafi notað. Ekkert hafi legið fyrir um það hvort hann hafi notað bíla í eigu Gaums. "Mér fannst ekkert sjálfgefið að það ætti að reikna Jóni Ásgeiri afnot af þessum bílum," sagði Stefán í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Þetta er annar dagur aðalmeðferðarinnar í skattahluta Baugsmálsins. Fjölmörg vitni hafa verið leidd fyrir dóminn. Auk Stefáns eru það Jóhannes Jónsson, faðir Jóns Ásgeirs og Kristínar Jóhannesarbarna, Vilhjálmur Einarsson sem er frændi þeirra og var sendill fyrir Gaum, Jón Björnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Haga ,og Óskar Magússon sem var meðal annars forstjóri Hagkaupa.

Sakborningarnir, Jón Ásgeir, Kristín Jóhannesdóttir og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, gáfu skýrslur í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×