Innlent

Styðja við almenningssamgöngur en fresta stórum vegaframkvæmdum

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og Eiríkur Bjarnason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni við undirritun í morgun.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og Eiríkur Bjarnason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni við undirritun í morgun.
Viljayfirlýsing um að vinna skuli að samningi um tíu ára tilraunaverkefni um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu var undirrituð í í innanríkisráðuneytinu morgun. Málið snýst um að gerður verði verði samningur um uppbyggingu og rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með markvissum stuðningsaðgerðum en um leið er sæst á frestun stórra vegaframkvæmda.

Þá skal einnig litið til almenningssamgangna sem tengja höfuðborgarsvæðið við nágrannasveitarfélögin sem eru innan sama atvinnusvæðis.

Yfirlýsingin var undirrituð af fulltrúm innanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að samningurinn liggi fyrir í haust. „Í samningsdrögum verði m.a. sett fram mælanleg samningsmarkmið fyrir framvindumat tilraunaverkefnisins, tillögur að kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga, skilgreining stórra vegaframkvæmda sem frestast o.fl. Viljayfirlýsing þessi verði hluti af tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011-2022 sem stefnt er að því að leggja fyrir Alþingi nú í haust,“ segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

„Samningsdrög ofangreindra aðila byggi á drögum samgönguráðs að stefnumótun vegna samgönguáætlunar 2011-2022 frá maí 2011 en þar segir: "Við vinnslu sjálfbærrar samgönguáætlunar með sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess verði gengið út frá þeim forsendum að ríkið skuldbindi sig til að leggja fjármagn í rekstur almenningssamgangna á svæðinu í 10 ára tilraunaverkefni ef á móti koma skuldbindingar sveitarfélaga um mótframlag, markvissar stuðningsaðgerðir og sátt um frestun stórra vegaframkvæmda á höfuðborgar­svæðinu. Framlag ríkisins komi af kolefnisgjaldi sem ríkið innheimtir af jarðefnaeldsneyti og verði af stærðargráðunni 1.000 millj. kr. á ári. Meginmarkmiðið verði að a.m.k. tvöfalda hlutdeild almennings­samgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu. Árangur af þessu tilraunaverkefni verði metinn í framvindumati á tveggja ára fresti og framlög verði þá endurskoðuð."„

Þá segir að viljayfirlýsingin og samningsdrög séu með fyrirvara um fjárlög og niðurstöður í umræðum og afgreiðslu Alþingis á samgönguáætlun.

Viljayfirlýsinguna undirrituðu þau Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og Eiríkur Bjarnason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×