Innlent

Áfrýjar DV-máli til Hæstaréttar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir ætlar að áfrýja sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir DV til Hæstaréttar. Heiðar Már höfðaði mál gegn blaðinu vegna ummæla sem féllu um hann í blaðinu í október á síðasta ári. Í blaðinu var meðal annars fullyrt að Heiðar Már hefði tekið stöðu gegn krónunni.

„Niðurstaða héraðsdóms er mér vonbrigði. Ef dómurinn stendur sýnist mér að fjölmiðlar geti látið ósönn ummæli falla um fólk á grundvelli rangs mats á heimildum, slegið því upp með glannalegum hætti og ausið svo fúkyrðum yfir fólkið á grundvelli hins vitlausa fréttaflutnings, nema unnt sé að sanna að þeir hafi verið í vondri trú," segir Heiðar Már í yfirlýsingu til fjölmiðla. Það verði að telja að við slíkar aðstæður séu kröfur um ábyrga fjölmiðlaumfjöllun orðnar rýrar og æruvernd almennra borgara lítil sem engin.

Reynir Traustason, ritstjóri DV, sagði við Vísi í dag að niðurstaða dómsins væri þess eðlis að trú hans á dómstólum hefði aukist. „Þetta er að mínu viti, sanngjörn og falleg niðurstaða," sagði Reynir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×