Innlent

Ráðist á heimasíðu Bubba: Ættu mjög bágt ef ég vissi hverjir þeir væru

„Nei, þeir ættu mjög bágt ef ég vissi það. Það er ekkert flókið,“ segir Bubbi um þá sem gerðu árás á heimasíðu hans.
„Nei, þeir ættu mjög bágt ef ég vissi það. Það er ekkert flókið,“ segir Bubbi um þá sem gerðu árás á heimasíðu hans. mynd/Brjánn
„Þetta er mér algjörlega óskiljanlegt, ég skil ekki hver sér tilganginn í að gera svona," segir Bubbi Morthens tónlistarmaður en óprúttnir aðilar gerðu árás á heimasíðu hans, bubbi.is, í nótt. Síðan liggur niðri en inni á henni er mikið af upplýsingum um feril hans.

Bubbi segir að viðgerðarmenn vinni nú að því að laga síðuna og ef allt fer að óskum gæti hún komið aftur upp eftir helgi. „Þessi síða er einstök hér á Íslandi. Það er engin síða sem hefur að geyma jafn mikið magn af efni og er að finna á bubbi.is," segir hann.

Hann segist ekki skilja hvað vakir yfir mönnum sem geri árásir á heimasíðu sem þessa. „Ég fatta ekki hvað „point-ið" er hjá mönnum sem rústa heimasíðu aðdáanda sem hefur að geyma upplýsingar um feril minn," segir Bubbi en það aðdáandi hans, Bárður Örn, sem sér um heimasíðuna. „Þetta er líka dálítið áfall fyrir hann. Þessi síðar er búin að vera lengi í loftinu."

Bubbi segist ekki vita hverjir það eru sem standa að baki árásinni á síðuna. „Nei, þeir ættu mjög bágt ef ég vissi það. Það er ekkert flókið," segir hann en hann grunar engan sérstakan. „Nema einhverjum sem eru verulega illa við mig, það er eflaust einhver þarna úti sem er það," segir hann.

Annars er allt gott að frétta af Bubba. „Ég er bara glaður, það er gaman og gengur vel. Ég er að túra þessa dagana og verð með tónleika í sveitinni minni í kvöld, í félagsheimilinu Dreng í Kjós," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×