Innlent

Þarf að varast kjaftasögur og sporna gegn meiðandi skrifum

Helga Arnardóttir. skrifar
Bæjarstjórinn í Sandgerði segir íbúa bæjarins harmi slegna vegna sjálfsvígs ellefu ára drengs fyrir helgi. Hún hvetur Sandgerðinga til að sýna samstöðu, varast kjaftasögur og sporna gegn meiðandi skrifum á netinu.

Mikil sorg ríkir í Sandgerði um þessar mundir vegna drengsins sem féll fyrir eigin hendi á heimili sínu síðastliðinn föstudag. Um þrjú hundruð manns mættu á bænastund í safnaðarheimilinu í Sandgerði í gærkvöld. Þá var haldin samverustund í grunnskóla Sandgerðis í morgun með börnum og foreldrum. Bæjarstjórinn segir íbúa harmi slegna.

„Fólk er auðvitað í miklu áfalli og harmi slegnir. Auðvitað fyrst og fremst fjölskylda og aðstandendur drengsins, en allt samfélagið er í mikilli sorg," segir Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerðis.

Hún segir bæjarbúa hafa sýnt mikla samstöðu og hvetur alla til að sýna fjölskyldu drengsins stuðning. Fram hefur komið að hann hafi verið fórnarlamb eineltis í skólanum og liðið illa í langan tíma. Hann hafi hins vegar einnig glímt við geðraskanir og þunglyndi. Sigrún segir skólann vinna samkvæmt Olweusaráætluninni gegn einelti og markvisst hafi verið farið eftir henni frá 2002.

„En það er hinsvegar erfitt að koma algjörlega í veg fyrir einelti. Mig langar líka að taka fram að það er auðvelt að benda á eitthvað eitt en málið er flóknara en svo," segir Sigrún.

Hún segir mikla umræðu vera á netinu um málið og varar við því að fólk reyni að finna sökudólga.

„Ég held að það sé líka mikilvægt að fólk gæti sín, og hvað börnin eru að skrifa á facebook sem og það sjálft, svo umræðan rati ekki í ógöngur."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×