Innlent

Tvær rannsóknarnefndir tóku til starfa í dag

Höskuldur Kári Schram skrifar
Tvær rannsóknarnefndir Alþingis tóku formlega til starfa í dag en nefndunum er ætlað að rannsaka annars vegar fall sparisjóðanna og hins vegar starfsemi Íbúðalaánasjóðs. Nefndirnar hafa víðtækar heimildir til gagnasöfnunar.

Nefndirnar voru kynntar á sérstökum blaðamannafundi í dag en þær munu hafa aðstöðu í gamla húsnæði Landlæknisembættisins á Seltjarnarnesi.

Nefndirnar voru skipaðar í samræmi við tvær þingsályktunartillögur sem alþingi samþykkti í vor og munu starfa samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir.

Annarri nefndinni verður falið að rannsaka starfsemi íbúðalánasjóðs á árunum 2004 til 2010 og gert að skoða meðal annars viðbrögð sjóðsins við vaxandi þenslu á fasteignamarkaði fyrir hrun.

Hin nefndin fær það hlutverk að rannsaka fall sparisjóðanna.

Nefndirnar hafa víðtækar heimildir til gagnasöfnunar og geta kallað einstaklinga til skýrslutöku. Þeim er ennfremur falið að koma með ábendingar um hvort breyta þurfi lögum og starfsháttum.

„Eins ber okkur að athuga hvort hafi verið um vanrækslu eða mistök í starfsemi annað hvort sparisjóðanna eða eftirlitsaðila og vísa þá málum til réttra aðila ef það er grunur um refsiverð brot eða brot á starfsskyldum," segir Sigríður Ingvarsdóttir, formaður nefndar um sparisjóðina.

Hvernig verður síðan farið með niðurstöðu þessara rannsókn?

„skýrslur frá þessum rannsóknarnefndum munu koma fyrir Alþingi, fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem mun taka þær til umfjöllunar. svipað og var með rannsóknarnefnd Alþingis sem tók skýrsluna þaðan þá var sett á laggirnar sérstök þingmannanefnd, en nú er komin sérstök stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem að sinnir þessu hlutverki," segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×