Íslenski boltinn

Ólafur: Það gerist of oft hjá okkur að það vanti grimmd og kraft

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. Mynd/Daníel
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki ánægður með leik sinna manna eftir 0-1 tap á móti Fram á Laugardalsvellinum í kvöld. Úrslitin þýða að Blikar eiga enn á hættu áð falla úr Pepsi-deildinni þótt að margt þurfi nú að gerast til að allt fari á versta veg í Kópavoginum.

„Við spiluðum ekki vel í dag. Við vorum allt í lagi aftast í vörninni, á miðjunni héngum við illa saman og svo sköpuðum við fá færi. Þau fáu færi sem við fengum nýttum við illa þannig að það er erfitt að segja að þetta hafi verið góður leikur hjá okkur," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks eftir leikinn en Blikar hafa ollið miklum vonbrigðum í sumar.

„Það hafa orðið miklar breytingar hjá okkur og meiri breytingar en fólk gerir sér grein fyrir. Ég held að það er engin ein skýring á þessu. Við höfum ekki verið að spila nægjanlega vel, við verjumst ekki eins vel og í fyrra og það vantar fleiri strengi til að spila á í sókninni," sagði Ólafur.

Blikaliðið kom hálf andlaust inn í seinni hálfleikinn þrátt fyrir að vera marki undir en Ólafur saknaði grimmdarinnar allan leikinn.

„Stundum er það bara þannig að þú dettur niður í einhverja deyfð og það er enginn ásetningur hjá mönnum. Menn verða að átta sig á því af hverju það gerist því það gerist of oft hjá okkur að það vanti grimmd og kraft," sagði Ólafur og eftir úrslit dagsins eru Blikar ekki enn alveg lausir við fallbaráttuna.

„Ég hef áhyggjur af því þar sem að ég vil ekki vera í fallbaráttu. Ég vil koma liðinu úr fallbaráttu og ég held að við þurfum tvö til þrjú stig í viðbót því þá erum við komnir í var. Nú snúast næstu leikir um að tryggja sæti sitt í deildinni," sagði Ólafur Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×