Íslenski boltinn

Páll Viðar: Það vantaði meiri einbeitingu

Valur Smári Heimisson skrifar
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs.
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs. Mynd/Pjetur
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, var ekki nægilega sáttur við sína menn eftir 1-3 tap fyrir  Eyjamönnum á Hásteinsvellinum í dag. Páll Viðar talaði um einbeitingaleysi hjá sínum mönnum og að dómari leiksins, Erlendur Eiríksson, hafi nú ekki átt fullkominn leik. Páll Viðar vildi þó ekki skella allri skuldinni á Erlend.

„Það sem vantaði upp á okkar leik í dag var bara meiri einbeiting. Við gáfum þeim allt of mikið pláss fyrir utan okkar vítateig og þeir nýttu sér það. Við vorum ekki nægilega grimmir á þessa seinni bolta sem voru að detta eftir skallaeinvígin. Við áttum þó fína kafla í leiknum en það dugir ekki ef menn missa svo einbeitinguna í nokkrar mínútur og fá á sig mark,“ sagði Páll Viðar.

Erlendur Eiríksson dæmdi þennan leik en það voru þó dómar í leiknum sem stuðningsmenn Þórs mótmæltu mikið.

„Það voru þarna þrjú atriði sem ég set spurningamerki við. Rajkovic sagðist vera kominn með báðar hendur á boltann í fyrsta markinu þeirra. Svo er það þegar sóknarmaður okkar er sloppinn einn í gegn og virðist vera brotið á honum. Ég spyr af hverju ætti hann þá að láta sig bara detta í svona opnu færi? Og loks var það þegar minn maður var tæklaður illa aftan frá. Ég stíg nokkur skref inná völlinn og þá fæ ég og Eyjamaðurinn sömu áminningu. En ég vil samt taka það fram að það var ekki dómaranum að kenna að við töpuðum þessum leik í dag heldur okkur sjálfum.“ sagði Páll Viðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×