Íslenski boltinn

Keane komst ekki til landsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/HAG
Ekkert varð að því að Roy Keane kæmi til landsins en Eggert Magnússon lenti á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis. Til stóð að Keane myndi koma með honum til landsins.

„Hann kemur ekki. Börnin hans eru í skóla og hann komst ekki af fjölskylduástæðum. Hann hefur þó áhuga að koma til landsins sem fyrst og vonandi gerir hann það," sagði Eggert við fjölmiðla sem biðu þeirra í Leifsstöð.

Eggert segir að hann sjálfur hafi boðið Keane til landsins og vildi ekki staðfesta að hann hafi haft samband við Keane með það fyrir augum að koma af stað viðræðum um landsliðsþjálfarastarfið.

„Ég er heiðursforseti KSÍ og er alltaf að vinna fyrir sambandið,“ sagði hann. „Við ætluðum að bjóða þeim hjónum til landsins en svo kom eitthvað upp á. Börnin eru að byrja í skóla og hann er mikill fjölskyldumaður. Hann er gamall félagi minn úr ensku knattspyrnunni og ég hef ekki rætt við hann um annað,“ sagði Eggert.

„Það hefur því ekki verið rætt að hann muni taka að sér þetta starf. Hins vegar hafið hann áhuga á að koma og skoða land og þjóð. Það var meiningin að hann færi á bæði leikinn gegn Kýpur og á U-21 landsleikinn.“

„Ég hef ekkert nema gott um Roy Keane að segja. Hans ferill og það sem hann gerði bæði sem leikmaður með félagsliði og landsliði segir allt sem segja þarf. Ég vona að hann sjái sér fært um að þiggja boðið fyrr en síðar.“

Keane er einn þekktasti knattspyrnumaður heims en hann lék í tólf ár með Manchester United þar til hann fór frá félaginu árið 2005. Síðan þá hefur hann þjálfað lið Sunderland og Ipswich.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×