Íslenski boltinn

Alfreð: Höfum gleymt því hvernig á að fagna

Kolbeinn Tumi Daðson skrifar
Alfreð Finnbogason brosti út að eyrum eftir langþráðan sigur íslenska landsliðsins. Hann sagði leikmenn hreinlega hafa gleymt því hvernig ætti að fagna sigri.

„Jú, það er ekki annað hægt. Það var löngu kominn tími á sigur, þetta datt fyrir okkur í dag og við erum hrikalega ánægðir með það," sagði Alfreð sem sagði stemmninguna inni í klefa eftir leikinn hafa verið skrýtna.

„Það er svo langt síðan við höfum unnið leik að ég held við höfum gleymt því hvernig á að fagna. Menn voru fyrst og fremst ánægðir með að enda þetta mót með stolti og sérstaklega fyrir Óla sem hefur legið undir mikilli gagnrýni," segir Alfreð.

Alfreð segir gagnrýnina réttmæta enda hafi úrslitin ekki verið góð í mótsleikjum.

„Ábyrgðin er að stórum hluta leikmannanna líka. Við getum ekki sett alla ábyrgðina á hann. Við erum samsekir í þessu," sagði Alfreð sem sagði ólíkt betra að ræða við fjölmiðlamenn eftir sigurleiki.

„Já, menn hafa verið með kvíða að koma út úr klefanum að tala við blaðamenn en ég held að það geri allir með glöðu geði í kvöld," sagði Alfreð sem var nokkuð sáttur með frammistöðu sína þær tíu mínútur sem hann fékk.

„Mér fannst fínt að koma inná. Það þurfti ferskar lappir í framlínuna, menn voru orðnir svolítið þreyttir. Gaman að fá mínútur og sanna sig. Mér fannst ég komast ágætlega frá þessu," sagði Alfreð.

Alfreð kom inná ásamt Birni Bergmann. Hann var í góðri stöðu inn á teig þegar Björn skaut í stöng úr þröngu færi.

„Já, ég reyndi að öskra á hann en eins og sannur framherji sá hann bara markið. Ég fyrirgef honum það núna en næst gefur hann vonandi á mig," sagði Alfreð léttur.

Alfreð var ánægður með að fara loksins heim með sigur í farteskinu.

„Þetta hefur verið klisja hjá íslenska landsliðsinu, spila vel en tapa samt. Það er mjög þreytt að vera að afsaka það eftir hvern einasta leik en við þurfum sem betur fer ekki að gera það í dag," sagði Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×