Innlent

Guðmundur Steingrímsson mun stofna nýjan stjórnmálaflokk

JHH og FI skrifar
Guðmundur Steingrímsson ætlar að stofna nýjan stjórnmálaflokk.
Guðmundur Steingrímsson ætlar að stofna nýjan stjórnmálaflokk.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun tilkynna um stofnun nýs stjórnmálaflokks á morgun, samkvæmt heimildum Vísis. Heimildir herma að Guðmundur sé óánægður með ýmislegt í stefnu Framsóknarflokksins og hafi verið það um skeið. Meðal annars einarða afstöðu Framsóknarflokksins gegn Evrópusambandinu.

Vísir hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að ná tali af Guðmundi, án árangurs. Í samtali við DV.is staðfesti hann þó að tíðinda væri að vænta. Aðrir þingmenn flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Höskuldur Þórhallsson og Eygló Harðardóttir hafa heldur ekki svarað.

Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður þingflokksins, sagði hins vegar í samtali við Vísi að hann hefði ekkert heyrt um mögulegt brotthvarf Guðmundar úr flokknum. „Ég veit ekki annað en að Framsóknarflokkurinn hafi það nokkuð gott og hafi verið að sækja í sig veðrið á öllum stöðum," segir Sigurður Ingi Jóhannsson í samtali við Vísi. Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokksins, og Siv Friðleifsdóttir kannast heldur ekki við málið.

Samkvæmt heimildum Vísis hafa staðið yfir umræður um stofnun þessa flokks í nokkurn tíma. Úrsögn þriggja frammámanna úr flokknum nýlega mun vera tengd þessum umræðum.


Tengdar fréttir

Ætlar að tilkynna ákvörðun sína á morgun

"Ég er búinn að ákveða að segja á morgun hvað ég hafði hugsað mér að gera og vil aðeins hafa stjórn á þeirri atburðarrás,“ segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við Vísi. Hann vill því hvorki játa því né neita hvort hann muni stofna nýjan stjórnmálaflokk eins og greint hefur verið frá í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×