Innlent

Ögmundur á móti því að menn verði sektaðir á staðnum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Innanríkisráðherra hefur miklar efasemdir um að rétt sé að fara að fordæmi Svía og veita lögreglunni heimildir til að sekta menn á staðnum fyrir sóðaskap.

Regína Ásvaldsdóttir, staðgengill borgarstjóra, hefur sagt að til skoðunar sé hjá Reykjavíkurborg að sekta þá einstaklinga á staðnum sem uppvísir verða að sóðaskap. Eins og komið hefur fram voru samþykkt ný lög í Svíþjóð á dögunum sem heimila lögreglunni þar í landi að sekta menn á staðnum fyrir að henda rusli á almannafæri. Upphæðin nemur 800 sænskum krónum eða jafnvirði 14.400 íslenskra króna, sem menn gætu verið sektaðir um fyrir að henda bjórdós eða samlokubréfi í almenningsgarði, svo dæmi sé tekið.

Þótt embættismenn borgarinnar og kjörnir fulltrúar kunna að hafa áhuga á þessu þá þarf að setja heimild fyrir þessu í lögreglusamþykkt svo þetta sé framkvæmanlegt og til þess þarf lagastoð. Breyta þyrfti lögum um meðferð sakamála svo lögreglunni yrði gert kleift að sekta menn á staðnum, en fyrirkomulagið eins og það er núna hér á landi er eins og það var í Svíþjóð áður. Rannsaka þarf brotið og gefa út ákæru, gangist menn ekki við því. Á síðasta ári í heild sinni komu upp fjögur mál á höfuðborgarsvæðinu þar sem menn voru sektaðir fyrir sóðaskap.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að þetta hafi komið til tals að rýmka sektarheimildir lögreglu þannig að þær nái ekki aðeins til umferðarlagabrota. „Þetta kom fram í álitsgerð starfshóps sem skilaði áliti sínu til ráðuneytisins í desember í fyrra. En í þessari álitsgerð kemur líka fram að hópurinn leggi áherslu á að fara þurfi varlega í að fela lögreglumönnum að bjóða þeim sem standa að brotum að ljúka þeim með sekt á staðnum. Sjálfur er ég fullur efasemda um þessa leið, að lögreglumenn annist innheimtu sekta (fyrir sóðaskap) á vettvangi."

Ögmundur segir að sú hafi verið tíðin að það hafi verið lenska að fleygja rusli út um bílglugga á þjóðvegum landsins. Þetta muni þeir sem komnir séu til ára sinna. Á þessu hafi hins vegar orðið grundvallarbreyting og hún hafi ekki komið til sögunnar vegna sekta, heldur með upplýstri umræðu og aukinni umhverfisvitund. Ögmundur segir að viðhalda þurfi slíkri umræðu áfram. „Ég held að við leysum þetta ekki með sektum," segir hann. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×