Innlent

Forseti Hells Angels gagnrýnir „taktík" lögreglu

Erla Hlynsdóttir skrifar
Einar "Boom" ætlar að kæra lögreglustjóra og innanríkisráðherra fyrir meiðyrði
Einar "Boom" ætlar að kæra lögreglustjóra og innanríkisráðherra fyrir meiðyrði Mynd Valgarður
Einar „Boom" Marteinsson, forseti Hells Angels á Íslandi, er afar ósáttur við að lögreglan bendli samtökin við handtöku manns sem var gómaður með heimagert skotvopn í fyrradag. „Þetta tengist okkur ekki á neinn hátt. Fréttin hjá lögreglunni er röng. Þetta er bara „taktík" hjá lögreglunni að bendla okkur við þetta," segir Einar.

Lögreglan sendi út fréttatilkynningu í gær um handtökuna og segir þar: „Á staðnum fundust einnig gögn sem tengjast ætluðum meðlimum vélhjólahópsins Hells Angels og er hinn handtekni grunaður um að tengjast hópnum."

Vísir birti frétt um málið í gær og hafði Einar því samband við fréttamann í því skyni að koma sínu sjónarmiði á framfæri.

Einar hefur áður gagnrýnt upplýsingagjöf lögreglu til fjölmiðla og segir hann Hells Angels ítrekað bendlað við glæpastarfsemi, að ósekju. Þá hefur hann gefið út að hann ætli að stefna lögreglustjóra og innanríkisráðherra fyrir meiðyrði eftir að þeir gáfu út opinberlega að Hells Angels væru glæpasamtök.

Neitar því að vera glæpamaður

Þegar blaðamaður segir við Einar að það sé einföld staðreynd að meðlimir Hells Angels hafi um víða veröld verið handteknir og dæmdir fyrir alvarlega glæpi, svarar Einar: „Það eru menn sem tengjast Sjálfstæðisflokknum sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi. Það eru menn sem tengjast Þjóðkirkjunni sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi."

Blaðamaður spyr Einar því beint hvort hann sé sjálfur glæpamaður. „Nei, ég er mótorhjólamaður," svarar hann.

Einar segir Hells Angels vera fjölskylduvæn samtök áhugamanna um mótorhjól og er honum annt um að þau séu ekki tengd við afbrot af nokkru tagi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×