Erlent

Fyrsta konan sakfelld fyrir þjóðarmorð

Um 800.000 manns eru sögð hafa verið myrt í þjóðarmorðunum í Rwanda.
Um 800.000 manns eru sögð hafa verið myrt í þjóðarmorðunum í Rwanda. Mynd/AP
Kona frá Rwanda var í dag dæmd í lífstíðarfangelsi ásamt syni sínum og er hún þar með orðin fyrsta kona sögunnar sem er sakfelld fyrir þjóðarmorð.

Pauline Nyiramasuhuko var kvenna- og fjölskylduráðherra Rwanda árið 1994 þegar um 800.000 manns af Tutsi-ættbálkunum og stuðningsmenn þeirra voru drepnir en hún hefur nú ásamt syni sínum verið sakfelld fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu af alþjóðlegum dómstóli Sameinuðu Þjóðanna.

Þó svo Nyiramasuhuko sé eina konan sem ákærð hefur verið fyrir sérstökum þjóðarmorðs-dómstóli, er hún ekki fyrsta konan til að vera ákærð fyrir þjóðarmorð en Bosníuserbinn Biljana Plavsic stóð frammi fyrir sömu ákæru árið 2000 fyrir hlut sinn í átökunum á Balkanskaga.

Nyiramasuhuko er hinsvegar eina konan sem dæmd hefur verið fyrir glæpinn en réttarhöldin vegna Rwanda þjóðarmorðanna hafa nú staðið yfir í 10 ár og báru tæplega 180 manns vitni í réttarhöldunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×