Fótbolti

Eiður Smári segir frá knattspyrnulífi sona sinna í Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Vilhelm
Eiður Smári Guðjohnsen er í ítarlegu viðtali í breska blaðinu The Independent í dag og segir meðal annars frá sonum sínum þremur sem búa enn í Barcelona.

Eiður Smári lék með Barcelona frá 2006 til 2009 en hefur undanfarin tvö ár verið á mála hjá liðum í Frakklandi og Englandi sem kunnugt er.

Fjölskylda Eiðs Smára býr enn í Barcelona og segir hann til að mynda í viðtalinu og það hafi verið honum erfitt að vera fjarri henni undanfarin misseri.

Í viðtalinu, sem má lesa hér, greinir hann frá því að synir hans þrír hafi allir áhuga á knattspyrnu og þeir tveir eldri - Sveinn Aron og Andri Lucas - eru nú að æfa með ungmennaliðum félagsins.

Sveinn Aron verður þrettán ára gamall síðar í mánuðinum og er í knattspyrnuakademíu Barcelona, þeirri sömu og hefur alið af sér gríðarlegan fjölda frábærra knattspyrnumanna - þeirra á meðal Lionel Messi og marga fleiri.

Andri Lucas, níu ára, er í sérstökum skóla á vegum Barcelona og segir Eiður Smári að börnin þarf þurfi að búa yfir ákveðnum hæfileikum til að geta sótt hann. Annars er foreldrum tilkynnt á kurteisan máta að „þetta sé ekki fyrir son þeirra".

Um Daníel Tristan, fimm ára, segir hann: „Hann elskar fótbolta en vill ekki byrja að æfa fyrr en hann getur byrjað að æfa með Barcelona!"

Þá kemur einnig fram í viðtalinu að strákarnir vilji spila fyrir hönd íslenska landsliðsins, rétt eins og faðir þeirra sem og afinn Arnór Guðjohnsen.

„Það getur vel verið að þeir verði ekki knattspyrnumenn þegar fram í sækir en sá elsti virðist vera harðákveðinn í því. Mér stendur í raun á sama svo framarlega að þeir þekki muninn á réttu og röngu og komi fram við annað fólk af virðinu. Þá verð ég stoltasti pabbi í heimi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×