Innlent

Feðgar dæmdir fyrir árás á verslunarmann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóminn.
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóminn.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag tvo karlmenn, sem eru feðgar, í skorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á starfsmann í Fjarðakaupum í Hafnarfirði í apríl 2009. Starfsmaðurinn hugðist stöðva konu, sem er móðirin í fjölskyldunni, þegar að honum sýndist konan hafa stungið inn á sig geisladiskum úr versluninni. Eftir að þeir réðust að starfsmanninum réðust þeir á annan mann við verslunina sem hugðist koma starfsmanninum til aðstoðar.

Starfsmaður verslunarinnar bar fyrir dómi að fjölskyldufaðirinn hefði ráðist á sig þegar hann hafði afskipti af konunni og hún strunsað burt. Meðal annars hafi hann skallað sig. Síðan hafi sonurinn snúið sig niður í götuna. Feðgarnir neituðu hins vegar sök og sögðu að starfsmaðurinn hefði ráðist á föðurinn og sonurinn þá snúið hann niður í götuna. Þeir neituðu líka árás á manninn sem hugðist koma starfsmanninum til hjálpar.

Dómurinn taldi hins vegar, meðal annars á grundvelli framburða vitna sem voru á staðnum, að sekt feðganna væri sönnuð. Faðirinn var því dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi en sonurinn í 30 daga fangelsi. Refsing var ákveðin meðal annars með það til hliðsjónar að málsmeðferð hefði dregist frá því að rannsókn málsins lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×