Innlent

Velferðarráðherra biðlar til tannlækna um samvinnu

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Velferðarráðherra biðlar til tannlækna að koma til samvinnu við ríkið um tannlæknaþjónustu fyrir börn og ungmenni undir 18 ára aldri. Markmiðið er að ríkið greiði 75 prósent af allri þjónustu barna.

Um tvöhundruð umsóknir hafa þegar borist um endurgjaldslausa tannlæknaþjónustu fyrir börn efnaminni foreldra. Þá virðast tannlæknar sammála um að tannheilsu þjóðarinnar sé að hraka.

Í fréttum okkar í gær gagnrýndi formaður Tannlæknafélagsins að þjónustan sé einungis í boði á höfuðborgarsvæðinu svo að hluti fjármagnsins fer í ferðakostnað. Velferðarráðherra segir mikilvægt að bæta tannheilsu íslenskra barna.

„það skiptir okkur miklu máli að geta boðið þessa þjónustu um allt land, þetta átak er bara til að bregðast við ákveðnum vanda og leysir ákveðna hluti en það er framtíðarsýnin sem skiptir mestu máli og framtíðarlausnin," segir Guðbjartur Hannesson.

Framtíðarlausnin er að greiða 75 prósent af öllum tannlækningum barna undir 18 ára og til lengri tíma er markmiðið að tannlækningar verði meðhöndlaðar eins og önnur heilbrigðisþjónusta með almennri gjaldtöku.

„En til þess að það geti orðið þá þurfum við að ná samningum við tannlækna til að vita hvert verðið er til þess að við vitum 75 prósent af hverju það er."

Ábyrgðin hvíli á samfélaginu í heild sem og tannlæknum og velferðarráðuneytinu.

„þannig við þurfum að stilla okkur saman og leysa þetta mál, það er alveg klár ósk mín," segir Guðbjartur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×