Fótbolti

Ísland fimmta prúðasta knattspyrnuþjóðin í Evrópu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Mynd/Pjetur
Ísland var í fimmta sæti á lista Knattspyrnusambands Evrópu yfir prúðustu knattspyrnuþjóðir álfunnar á síðasta tímabili. Efstu þrjár þjóðirnar fá aukasæti í Evrópudeild UEFA en það fellur í hlut Noregs, Englands og Svíþjóðar.

Ár hvert tekur Knattspyrnusamband Evrópu saman ýmsa þætti sem ákveða niðurröðun listans. Tímabilið nær frá 1. maí til 30. apríl næsta árs og því nýbúið að gefa út listann fyrir síðasta tímabil.

Prúðmennskan ræðst ekki bara af fjölda spjalda sem leikmenn ýmist landsliða eða félagsliða viðkomandi safna í alþjóðlegum keppnum, heldur einnig jákvæðni leikmanna, virðingu fyrir andstæðingum og dómurum sem og hegðun stuðningsmanna og starfsmanna liðanna. Þessir þættir eru metnir af eftirlitsmönnum UEFA hverju sinni.

Ísland missti því naumlega af Evrópudeildarsætinu sem í boði er fyrir efstu þrjár þjóðirnar. Norðmenn voru efstir á listanum, þá Englendingar, Svíar, Danir og Íslendingar. Næstu þjóðir á eftir eru Þýskaland, Irland, Finnland, Holland og Frakkland.

Neðstu þjóðirnar eru Liechtenstein, Lúxemborg, San Marínó, Albanía og loks Andorra sem rekur lestina sem svarti sauðurinn í knattspyrnufjölskyldu Evrópu.

Fram kemur í enskum fjölmiðlum í dag að Fulham muni líklega fá aukasæti Englendinga í keppninni. Chelsea er reyndar prúðasta liðið í ensku úrvalsdeildinni í dag en liðið er búið að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Fulham komst í fyrra alla leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar en Eiður Smári Guðjohnsen leikur með liðinu nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×