Erlent

Obama gerði stólpagrín að Trump

Donald Trump.
Donald Trump.
Auðkýfingurinn og raunveruleikastjarnan - og nú síðast hugsanlegt forsetaefni Repúblikanaflokksins - Donald Trump, átti frekar erfitt gærkvöld. Hann var staddur í kvöldverðaboði á vegum helstu dagblaða Bandaríkjanna. Heiðursgesturinn var forseti landsins, Barack Obama. Hann gerði stólpagrín af Trump.

Auðkýfingurinn hefur verið mikið í fréttunum vestan hafs undanfarið þar sem hann hélt því fram að Obama væri ekki fæddur í Bandaríkjunum, heldur í Kenýa. Það hefði þýtt að Obama væri ekki kjörgengur sem forseti. Obama sá sig því knúinn til þess að opinbera fæðingavottorð sitt sem sýnir að hann hafi fæðst á Hawaí.

Obama skaut föstum skotum á hugsanlegan andstæðing sinn í forsetakosningunum á næsta ári. Þar sagði Obama meðal annars að hann hefði horft á raunveruleikaþáttinn „Lærlingurinn" (e.The apprantice) sem Trump sér um. Obama sagðist heillaður af því hvernig hann greindi kjarna vandamáls lærlinga sinna og rak þann úr þættinum sem raunverulega átti sökina.

Obama bætti svo við: „Þetta eru svipaðar áhyggjur og halda mér vakandi á nóttinni. Vel gert herra, vel gert."

Eftir að Obama lauk máli sínu tók Seth Meyers, sem var kynnir kvöldsins, við gríninu. Hann gerði stólpagrín að Trump en þegar sjónvarpsvélum var beint að auðkýfingnum sást að honum stökk ekki bros á vör alla ræðuna.

Reyndar er sjón sögu ríkari.

Hér er ræða forsetans.

Hér er ræða Seths, en þar er einnig að finna viðbrögð, eða viðbragðsleysi Trumps öllu heldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×