Enski boltinn

Terry: Við getum stolið titlinum á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry, fyrirliði Chelsea í leik á móti United.
John Terry, fyrirliði Chelsea í leik á móti United. Mynd/Nordic Photos/Getty
John Terry, fyrirliði Chelsea, fagnaði að sjálfsögðu úrslitum helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni en þau þýða að Chelsea getur nú komist á toppinn með sigri á Manchester United á Old Trafford um næstu helgi. Chelsea vann 2-1 sigur á Tottenham á sama tíma og Arsenal vann 1-0 sigur á United.

Chelsea var fimmtán stigum á eftir Manchester United í mars og Terry segir að takist liðinu að vinna meistaratitilinn nú verði það jafn sætt og þegar fyrsti meistaratitill félagsins í fimmtíu ár vannst árið 2005.

„Þessi yrði örugglega jafn sætur og sá sem við unnum eftir 50 ára bið. Það voru tímapunktar þar sem þeir voru að stinga af og þá hélt ég að við ættum ekki lengur möguleika. Að verða nú komnir bara þremur stigum á eftir þeim sýnir hvað við höfum afrekað og það að við gefumst aldrei upp," sagði John Terry.

Framundan er hálfgerður úrslitaleikur milli Manchester United og Chelsea á sunnudaginn kemur.

„United á líka eftir nokkra erfiða leiki. Ef við förum þangað og töpum þá eiga þeir titilinn vísann en þeir vita að við getum komið á Old Trafford og náð góðum úrslitum. Stjórinn okkar er búinn að halda öllum við efnið og ýta undir hungrið í liðinu og það hefur líka verið mikilvægt að hafa stuðningsmenn okkar að baki okkur allan tímann. Þeir leyfðu okkur aldrei að gefast upp," sagði Terry.

„Það er ekki til betri hvatning en að geta farið á Old Trafford og stolið titlinum. Með sigri þá komum við okkur í lykilstöðu til þess að koma með bikarinn aftur á Brúnna og sú staðreynd mun gefa okkur aukakraft í þessum leik," sagði Terry.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×