Enski boltinn

Pearce: Wilshere vill fá að spila með 21 árs landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere í leik gegn Bolton á dögunum.
Jack Wilshere í leik gegn Bolton á dögunum. Mynd/AP
Stuart Pearce, þjálfari enska 21 árs landsliðsins, segir að Arsenal-maðurinn Jack Wilshere vilji ólmur fá að spila með liðinu í Evrópukeppninni í Danmörku í sumar og hann búist því við að lenda í einhverjum deilum við Arsene Wenger, stjóra Arsenal, um hvort að Wilshere verði með eða ekki.

„Það sem ég hef heyrt frá Jack er að hann vill spila," sagði Stuart Pearce. Wilshere er aðeins 19 ára gamall en hann er þegar búinn að vinna sér sæti í A-landsliðinu.

„Leikmennirnir munu ráða því sjálfir hvort þeir gefa kost á sér eða ekki og þannig hefur það alltaf verið. Félögin munu reyna að virða óskir leikmannanna og ef að þeir vilja spila þá eiga þeir að fá að spila," sagði Pearce.

„Ég veit að ég og Wenger eigum eftir að vera ósammála en það sem mér finnst vera langmikilvægast er að strákurinn vill fá tækifæri til að spila í úrslitakeppni 21 ára liða. Við höfum rætt þetta og það er á hreinu," sagði Pearce.

Wilshere hefur spilað yfir 40 leiki með Arsenal á tímabilinu og hefur verið auk þess með í fjórum A-landsleikjum. Hann var kosinn besti ungi leikmaður deildarinnar í apríl.

Englendingar eru í riðli með Spáni, Úkraínu og Tékklandi í riðli á Evrópumótinu í Danmörku en í hinum riðlinum eru Ísland, Danmörk, Sviss og Hvíta-Rússland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×